140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[13:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get tekið undir með honum þegar hann sýnir svona í máli sínu að hann sé orðinn þreyttur á að bíða eftir því að rammaáætlun komi fram enda er hún mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið. Hún er mikilvæg fyrir margra hluta sakir því að þar er flokkunin um það sem má fara í orkunýtingu og í vernd og síðan upplýsingar um það sem þarf á nánari rannsóknum að halda. Rammaáætlun þarf því nauðsynlega að koma fram fyrir atvinnulífið til að sveitarfélögin geti farið að undirbúa svæðin sem á eftir að undirbúa o.s.frv. sem fara í nýtingarflokk.

Varðandi Helguvík er komin upp ákveðin óvissa um kísilverið, þ.e. þar virðist fjárfestir vera að hætta við en það er kannski ekki alveg ljóst hvort hann gerir það, en mér er kunnugt um að margir fleiri vilja koma inn í það verkefni einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin hafa skipulagt svæðið. Umhverfismat hefur farið fram og fjárfestingarsamningur er í gildi fyrir verkefnið þannig að það er eftirsóknarvert. Góðar líkur eru því á að það verkefni fari fljótlega af stað.

Eins er uppbygging á norðaustursvæðinu sem skiptir mjög miklu máli. Þar er verið að tala um 200 megavött sem hægt sé að byrja á og þarf auðvitað að finna kaupendur að en það er það vaxtarsvæði, fyrir utan sunnanvert landið og Suðvesturland, sem þarf að markaðssetja og þar eru núna áætlanir um 200 megavött og svo önnur 200 í pípunum sem koma síðar.