140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

fjárfestingar erlendra aðila og auðlindagjald í orkugeiranum.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra náði ekki að svara spurningunni um vatnsaflið sem borin var fram áðan. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara spurningunni í svari sínu á eftir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í tvennt:

Í fyrsta lagi kom fram í stækkunarskýrslu fyrir Ísland sem Evrópuþingið samþykkti 14. mars síðastliðinn að skorað er á íslensk stjórnvöld að opna í áföngum atvinnugreinina í orkuframleiðslu o.fl. Tekur hæstv. iðnaðarráðherra jákvætt í það og er hún sammála Evrópusambandinu um að opna eigi fyrir fjárfestingar fyrir erlenda aðila í orkugeiranum? Evrópuþingið skorar á okkur að gera það. Er ráðherra sammála því að opna þurfi orkugeirann í áföngum fyrir erlendum fjárfestingum?

Í öðru lagi: Nú sjáum við að komið er fram frumvarp um sjávarútvegsmál þar sem lagt er til að mikið auðlindagjald verði lagt á sjávarútveginn. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort ráðherra telji eðlilegt að leggja sams konar gjald á aðrar náttúruauðlindir, til dæmis á þá sem nýta orkuna eða vindinn eða aðrar náttúruauðlindir sem eru á Íslandi. Horfi ég þá aðallega til orkufyrirtækjanna því að það er mjög mikilvægt að eitthvert samræmi sé í þeim aðgerðum sem við grípum til þegar farin er leið sem þessi. Ég spyr ráðherrann: Telur ráðherra eðlilegt að leggja svipaðar eða sömu álögur á orkugeirann og gert er varðandi sjávarútveginn? Hvort tveggja er í sjálfu sér náttúruauðlindir.