140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

afleiðingar veiðileyfagjalds.

[13:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem innihélt margar spurningar í einni. Hv. þingmaður spyr hvort áhrifin af þessu frumvarpi hafi ekki verið skoðuð. Því til að svara að við gerð frumvarpsins var haft mikið og margþætt samráð. Skoðaðar voru niðurstöður úr sáttanefnd og niðurstöður greininga á eldri frumvörpum sem lögð hafa verið fram um sama efni þannig að víðtækt samráð var haft og greiningar gerðar sem nýtast vel og hafa nýst vel við gerð þessa frumvarps. En ég er sammála hv. þingmanni þegar hann lýsir áhyggjum sínum af skuldugum og minni fyrirtækjum. Ég held að ástæða sé til að reyna að finna út hvernig við getum passað upp á litlu aðilana í geiranum. Gert er ráð fyrir ákveðnu gólfi í gjaldtökunni sem kemur til móts við þetta. Það þarf að skoða vel en ég leyfi mér að fullyrða að stóru aðilarnir ráða mjög vel við þá gjaldtöku sem lagt er upp með.

Í útreikningum Hagstofunnar á undanförnum árum hefur verið miðað við að eðlilegur hagnaður nemi um 6% af virði eignar fyrirtækjanna en í frumvarpinu sem hv. þingmaður talar um er gefið svigrúm, 8% í tilfelli útgerðar og 10% síðan í tilfelli vinnslunnar. Vegna þess að lög kveða ekki á um að aðskilja útgerð og vinnslu getur auðlindarentan myndast í vinnslunni og því eðlilegt að taka tillit til hennar þegar ákvörðun er tekin um gjaldið.