140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.

[13:58]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oft talað um grænu stóriðjuna þegar rætt er um garðyrkjuna og þá miklu stöðu sem hún hefur náð á undanförnum missirum. Í gær áttum við þingmenn í Suðurkjördæmi fínan fund með forustumönnum garðyrkjubænda á Friðheimum í Biskupstungum og ekki síst um stöðuna þar. Þar bar á góma það mikla og mikilvæga bakland sem Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi er. Hann rann á sínum tíma inn í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og á dögunum kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um alvarlegan og uppsafnaðan rekstrarvanda þess skóla til margra ára. Það er mikilvægt verkefni fyrir okkur á Alþingi í samvinnu við hæstv. menntamálaráðherra að finna lausn á þeim vanda enda er skólinn góður og þar hefur vel tekist til.

Á sameiginlegum fundi þingmanna Suðurkjördæmis og Norðvesturkjördæmis í síðustu viku kom fram hjá rektor skólans að ekki stæði til að loka einstökum starfseiningum eins og Reykjum í Ölfusi. Á sínum tíma var gert heiðursmannasamkomulag um það. Þegar ákveðið var að setja Reyki undir skólann, sem var mjög umdeilt og margir sem mótmæltu því, var lofað að ekki yrði í neinu hróflað við þeirri starfsemi. Það heiðursmannasamkomulag verður að standa þó að skólinn þurfi að fara í gegnum erfiðleika nú við að ná niður uppsöfnuðum rekstrarvanda. Hann má ekki bitna á starfsstöðinni á Reykjum í Ölfusi, enda kom fram í máli rektors að það stæði ekki til. Annað mátti hins vegar skilja á máli sama manns í fréttum um helgina þó að ekki tæki hann af öll tvímæli um hvað væri átt við.

Því vildi ég spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hún hefði kallað eftir viðbrögðum skólans við hinum uppsafnaða vanda og hvort ekki væri öruggt að heiðursmannasamkomulagið stæði, sem gert var á sínum tíma um að ekki yrði hróflað við starfsstöðinni á Reykjum í Ölfusi, enda yrði það augljóslega kostnaðarsamt og tafsamt að færa starfsstöðina og byggja hana upp á nýtt (Forseti hringir.) á öðrum stað á landinu.