140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.

[14:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, skólarnir á háskólastigi urðu margir á skömmum tíma og kannski var sá vöxtur fullhraður fyrir rekstrarumhverfið og það umhverfi sem við höfum búið þeim almennt. Það er ekki skrýtið að hv. þingmaður nefni þetta hér.

Eins og hv. þingmanni, og hv. þingmönnum öllum raunar, er kunnugt höfum við unnið að því í tvö ár að þétta samstarf hinna opinberu háskóla, þar á meðal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri ásamt Háskólanum á Hólum, Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Árangurinn af þessu samstarfi sem við höfum kallað samstarfsnet opinberu háskólanna er mikill, ekki endilega til skammtímahagræðingar heldur í því að sjá gerbreytingu á almennu rekstrarumhverfi skólanna þegar kemur að árangurs- og gæðamati, starfsmannaumhverfi og öðru.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét meta fýsileika þess að fara í beinharða sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands og ljóst er að slík sameining yrði kostnaðarsöm, a.m.k. til að byrja með, þannig að af þeim sökum var ekki ráðist í hana (Forseti hringir.) heldur farið í að vinna að þessu aukna samstarfi í samstarfsnetinu sem ég nefndi áðan.