140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

skattlagning neikvæðra vaxta.

[14:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir hér að verðbólgan sé of há og að ekki hafi tekist að halda henni í böndum. Ég deili áhyggjum af því með hv. þingmanni. Það er mikið hagsmunamál, eins og við öll þekkjum, að haga hlutunum þannig að verðbólgan haldist niðri. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, eins og seðlabankastjóri fór yfir um daginn í viðtali, að verðbólgan fer hér upp. Hún tengist meðal annars gjaldmiðlinum, hún tengist því að þó að útflutningur standi vel virðast útflutningstekjurnar ekki skila sér allar heim. Þannig lítur það að minnsta kosti út. Það er mikil gróska í ferðaþjónustu og það er mikill útflutningur en á móti kemur að stóru fyrirtækin okkar eru að greiða niður erlend lán. Við þurfum að (Forseti hringir.) finna út úr því hvað veldur því að verðbólgan fer svona upp. Hvað geta stjórnvöld gert til að sporna við þeim aðstæðum sem nú virðast vera uppi? (Forseti hringir.) Við þurfum að skoða það vel.