140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þannig er mál með vexti að í skýrslu forsætisnefndar um tillögu stjórnlagaráðs er að finna á bls. 81 og áfram langan kafla um það hvað hefur gerst á Alþingi með tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem lúta að fyrra atriðinu, þ.e. þjóðareign náttúruauðlinda. Þeir sem lesa þann kafla sjá í hendi sér að það er enginn ágreiningur á þinginu um að koma slíku ákvæði í stjórnarskrá. Við höfum verið að ræða á þinginu undanfarin ár með hvaða hætti ætti að orða þá grein. Hjá öllum fjórum stærstu flokkunum hefur ítrekað komið fram frumvarp um þetta efni þannig að ég sé ekki að það þjóni nokkrum tilgangi að spyrja svona opið um þetta atriði, enda felur spurningin það í sér, ef henni verður teflt fram óbreyttri, að náttúruauðlindir í einkaeign verði teknar með og lýstar þjóðareign. Óbreytt verður spurningin ekki túlkuð öðruvísi (Forseti hringir.) en að allar náttúruauðlindir séu lýstar þjóðareign. Hvernig er hægt að túlka (Forseti hringir.) spurninguna öðruvísi?