140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja þetta: Þetta mál verður sorglegra og sorglegra eftir því sem tíminn líður. Nú kemur fram í máli framsögumanns um þessa þingsályktunartillögu að bera eigi í heilu lagi tillögur stjórnlagaráðs undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningunum.

Virðulegi forseti. Svo er bara alls ekki því að samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er farið fram með spurningu um það hvort Alþingi megi leggja tillögur stjórnlagaráðs fram í frumvarpsformi á Alþingi. Sá réttur er til staðar og getur einn og upp í 63 þingmenn lagt fram mál. Það er aumkunarvert hvernig komið er fyrir þessu máli hjá ríkisstjórnarflokkunum og spyr ég því formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: Hvað finnst henni um þá gagnrýni sem komið hefur fram í nefndinni á þessar tillögur akkúrat um (Forseti hringir.) þessi atriði sem ég fór yfir?