140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður að hér er um enn einn tafaleikinn að ræða í þessari vinnu. Landskjörstjórn kom á fund nefndarinnar í morgun og það eru komnar fréttir um að landskjörstjórn telji þessar spurningar ekki tækar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi ferill sem búið er að koma málinu í núna sýnir fullkomið þekkingarleysi á málefnum stjórnarskrárinnar og stjórnarskipunarrétti landsins yfir höfuð. Ef ég þarf að stafa það ofan í þingmanninn sem stendur í spurningu eitt, að þingið sé ekki að fara fram á að fá leyfi hjá þjóðinni til að leggja fram frumvarp, stendur þar, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá …?“

Skýrara getur þetta ekki verið, frú forseti. Hér er farið fram með þingsályktunartillögu til að leita að því í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort einhver alþingismaður megi leggja fram frumvarp (Forseti hringir.) að stjórnarskrá. Þetta er hneyksli. [Hlátur í þingsal.]