140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli lokaorðum hv. þingmanns áðan. Ég bendi henni sérstaklega á að lesa þingtíðindin og ræður meðal annars allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa margítrekað það að við erum reiðubúin, og meðal annars hafa formenn Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina lagt fram tillögur um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Á okkur er bara ekki hlustað (Gripið fram í.) af því að menn vilja ekki raunverulegar breytingar.

Það sem menn eru að gera hér er að mínu mati ekkert annað en yfirklór. Að mínu mati sýnir líka svar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur áðan að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um þessar breytingar. Þess vegna er tiplað á tánum í kringum ákveðin málefni. Þess vegna má ekki spyrja hvort það eigi að vera valdaframsal í stjórnarskrá eða ekki.

Ég spyr líka hv. þingmann einnar spurningar í viðbót um fjölda þingmanna. Það hefur margoft komið fram að það eru skiptar skoðanir um hvort það eigi að vera þessi þingmannafjöldi, 63, eða færri. Af hverju er ekki þjóðin spurð hvort fækka eigi kjörnum þingmönnum á þingi sem meðal annars var rætt um á stjórnlagaráðsþinginu svonefnda? (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann að þessu og hvet hana til að lesa síðan ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins.