140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessu Alþingi hafa sjálfstæðismenn löngum ráðið öllu sem þeir vilja ráða. Það er breytt. Fyrri veturna töluðu sjálfstæðismenn mikið um samráð, það átti að hafa samráð en það var ekki samráð nema þeir réðu. (Gripið fram í.) Nú tala þeir um sátt og samstarf. Sáttin og samstarfið á að felast í því að fara eftir duttlungum sjálfstæðismanna. (ÓN: Snýst þetta allt um sjálfstæðismenn?) Já, það hefur verið þannig, virðulegi þingmaður, að sjálfstæðismenn eru ekki tilbúnir að ræða neitt (Gripið fram í: Rangt.) nema þeir ráði þar öllu. (Gripið fram í: Rangt.) Það má lesa í þingtíðindum þessa vetrar, [Hlátur í þingsal.] vetrarins á undan og þar á undan að svoleiðis er það. (Gripið fram í.)