140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:55]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að segja Sjálfstæðisflokknum það til hróss að hann hefur ekki verið á móti öllu því sem lagt hefur verið til í öllu ferlinu. Til dæmis þegar fjallað var um málið á árinu 2010 í þinginu lýsti flokkurinn yfir mikilli ánægju með þá ákvörðun að boða til þjóðfundar, hann lagði þá hugmynd til. Sjálfstæðisflokkurinn kom jafnframt fram með ábendingar til svokallaðrar stjórnlaganefndar og tók þannig fyrir sitt leyti þátt í því ferli sem við höldum nú áfram með. Það getur vel verið að hér skilji leiðir og að menn vilji fara hver í sína áttina varðandi það sem gera skuli í málinu. Það er nauðsynlegt að við reynum að ná eins víðtækri sátt um það og mögulegt er en þó ekki þannig að við ætlum að hætta við það.

Þess vegna er spurt: Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki eiga það samtal við þjóðina sem við leggjum til að farið verði í, sem er ráðgefandi og háð því að allir þingmenn, líka hv. þm. Bjarni Benediktsson, dragi eigin ályktanir af því samtali og séu ekki bundnir af því sem þar kemur fram, eins og hv. þingmaður reyndar sagði í þingræðu 11. júní 2010. Hann sagði að hann væri ekki bundinn af því ferli sem hér væri teiknað upp, enda er enginn að segja það.

Af hverju kemur þá ekki Sjálfstæðisflokkurinn með sínar hugmyndir inn í framhald málsins? Hann hefur lagt til ákveðna hluti sem farið hefur verið eftir, eins og til dæmis þjóðfundinn og með því að taka þátt í valinu á stjórnlaganefndinni. Hvar eru hugmyndirnar? Af hverju kemur Sjálfstæðisflokkurinn ekki með tillögur? Af hverju kemur Sjálfstæðisflokkurinn ekki þá með sitt frumvarp að nýrri stjórnarskrá, til dæmis með orðalagi um þjóðareignina og hver skoðun hans sé á því að ákveðinn hluti kosningarbærra manna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu? Þá gætum við átt efnislegt samtal um þetta mál sem væri því til góðs.