140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þetta átti að vera eitthvert efnislegt innlegg í umræðuna. Getur það verið að ég hafi hlýtt hér á andsvar sem átti að vera efnislegt innlegg í umræðuna eða var þetta, með allri virðingu, frú forseti, einhver skætingur í minn garð eða í garð Sjálfstæðisflokksins? Kemur þetta frá þingmanni sem kallað hefur eftir uppbyggilegri og málefnalegri umræðu á Alþingi til að auka virðingu þingsins? Er þetta ekki sá þingmaður sem hér mælti síðast?

Á þessu þingi sem er orðið þriggja ára gamalt hefur ekki bara verið kallaður saman þúsund manna þjóðfundur með fólki úr öllum aldurshópum af öllu landinu heldur var líka komið á fót stjórnlaganefnd sem skilaði af sér skýrslu og síðan hefur stjórnlagaráðið, sem kosið var hér með 30 atkvæðum á Alþingi, verið kallað saman í tvígang. Á borðinu hjá mér liggur nokkuð þykk skýrsla um afrakstur allrar þeirrar vinnu. Það tel ég vera meira en fullnægjandi sem undirbúningsgögn fyrir stjórnskipunarnefnd Alþingis til að hefja vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, það er skoðun mín. Ég tel að hún sé fyllilega málefnaleg og kalli ekki á einhverjar aðdróttanir um að ég treysti ekki fólki. Þvert á móti, ég geri það og ég tel að það eigi til dæmis að hlusta á alla þá sem fengu tillögu stjórnlagaráðsins til umsagnar og sögðu þær meira eða minna kategórískt ófullbúnar og ótækar til framlagningar á Alþingi sem nýtt frumvarp.

Spurningin snýr því kannski frekar að þeim sem hana bar upp. Vill hann ekki hlusta eftir ábendingum allra þeirra sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leitaði til og (Forseti hringir.) vöktu athygli nefndarinnar á því að málið væri ótækt til framlagningar á Alþingi?