140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski einhver smámunasemi í mér en mig langar aðeins að koma inn á þetta með kirkjuskipanina. Í tillögum stjórnlagaráðsins er óbreytt ákvæði um kirkjuskipanina.

Þar stendur:

„Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar …“

Það er í 19. gr. tillagna stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn er tekið út ákvæði um að hin evangeliska lúterska kirkja sé þjóðkirkja Íslendinga. Nefndin hefur fengið um það ábendingar og gesti sem benda á að þetta finnist þeim mjög mikil og stór breyting. Þess vegna teljum við rétt að spyrja: Telja landsmenn eða kjósendur að þjóðkirkjan eigi að skipa áfram þann sess í stjórnarskránni sem hún gerir nú?

Við höfum fengið gagnrýni á að spurningin sé neikvæð og ég tel að við þurfum að laga hana. Ég mun koma með breytingartillögu við það í nefndinni, en inntakið er þetta, svo að ég skýri það nákvæmlega.