140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo segir í 62. gr. stjórnarskrárinnar:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Þetta er 1. mgr. 62. greinar.

Síðan segir í 79. gr., 2. mgr.:

„Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Nú er komin fram tillaga stjórnlagaráðs. Þar er ekki kveðið á um þjóðkirkjuna. Þar segir ekki að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkjan. Það þýðir að stjórnlagaráð gerir tillögu til breytinga á kirkjuskipan á Íslandi. Ég sé ekki annað en að það sé breyting á (Utanrrh.: Stöndum við ekki með þjóðkirkjunni?) ákvæði 62. greinar. (Gripið fram í: Greinilega ekki.)

Ég er alveg tilbúinn að hlusta á gagnrök, ég segi bara að svona blasir málið við mér þegar ég les stjórnarskrána sjálfa, að það hljóti að þurfa að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla sérstaklega um þetta atriði. Það kann vel að vera að ég hafi rangt fyrir mér, ég hef svo sem ekki kafað mjög djúpt í þetta. (Utanrrh.: Það væri þá í fyrsta skipti.) Það væri þá í fyrsta skipti, segir hæstv. utanríkisráðherra, og ég hygg að hann ætli að styðja þjóðkirkjuna áfram (Gripið fram í.) eins og ég, (Utanrrh.: Já.) en einhverra hluta vegna þykir meiri hluta nefndarinnar tilefni til þess að bera það undir þjóðina án þess að nokkur hafi hreyft því á Alþingi í þessari umræðu svo ég muni.

Þetta er það sem ég á við, málið blasir þannig við mér að fara þurfi fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta. Ég segi það með öllum fyrirvörum um að stjórnarskrána þarf að túlka með hliðsjón af öllum undirgögnum og greinargerð sem henni fylgir, en svona blasir þetta við mér.