140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:22]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Að gefnu tilefni vil ég fyrst upplýsa þingmanninn um að Hreyfingin hefur ekki lofað ríkisstjórninni neinum stuðningi. Þetta mál um stjórnarskrána er eitt af okkar aðalbaráttumálum og hefur verið það síðan fyrir kosningar. Þetta var eitt af okkar helstu kosningamálum og það vill svo til að Hreyfingin og stjórnarflokkarnir hafa verið nokkuð samstiga í þessu máli og hafa unnið þar saman.

Þingmaðurinn hefur margoft lýst því yfir í mín eyru og annarra að þingið sé ekki bundið af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú veit ég að þingmaðurinn hefur lagt fram breytingartillögu (VigH: Það má ekki ræða hana.) um að þjóðin verði spurð hvort hætta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ég spyr hvort þingmaðurinn mundi virða niðurstöðu úr slíkri atkvæðagreiðslu.