140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Róbert Marshall misskildi spurningu mína. Mér er kunnugt um hvaða ferli er fyrirhugað miðað við það sem stendur í því sem frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur komið og auðvitað er það rétt að þegar upp er staðið verður alltaf að koma fram formlegt frumvarp á Alþingi sem leiðir álitamál um stjórnarskrármálin til lykta, en ég er að velta fyrir mér af hverju farið er út í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar þegar niðurstaða hennar snýst fyrst og fremst um spurninguna um það hvort leggja eigi fram frumvarp á Alþingi eða ekki.

Af hverju kemur hv. þingmaður ekki með frumvarp fram á Alþingi? Hann getur lagt til að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar það hefur hlotið þinglega meðferð, þegar það er komin endanleg niðurstaða. Af hverju er verið að fara þessa hjáleið? Af hverju er verið að taka þennan útúrdúr þegar ætlunin er, ef ég skil hv. þingmann rétt, hvort sem er að leggja fram frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs?