140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:48]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði að vissu leyti verið hægt að fá einhvers konar niðurstöðu í það mál, en eins og ég sagði í ræðu minni vill svo heppilega til að í sumar fara fram forsetakosningar og hægt er að framkvæma þessa þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þeim. Þessi aðkoma þjóðarinnar gæfi málinu aukið lýðræðislegt vægi, eins og ég sagði í ræðu minni. Þess vegna horfir öðruvísi við um slíka niðurstöðu en í skoðanakönnun með hefðbundnu úrtaki, jafnvel þó að það væri víkkað, því að þar fengi öll þjóðin tækifæri til þess að koma að þessu ferli.