140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er eðlilegt að maður spyrji hvort hv. þingmaður hafi áhyggjur af því að þjóðin hafi ekki nægilegan áhuga á þessu máli til að næg mæting verði í sérstaka kosningu sem færi fram um þetta, en látum það vera.

Hitt sem ég velti fyrir mér er hvort sá vilji sem kemur fram í slíkri kosningu sé jafnnákvæmur eða hans sé jafnnákvæmlega leitað og mætti gera með aðferðum skoðanakannana, þar sem úrtökin eru sett fram, vegna þess að það kann að vera — nú vil ég ekki fullyrða að svo sé — að þeir sem taki þátt í þessari kosningu endurspegli ekki endilega þjóðarviljann, að ákveðinn hópur fari frekar á kjörstað en aðrir, þeir sem láti sig málið sérstaklega varða vegna sterkra skoðana á ákveðnum þáttum í stjórnarskránni, þannig að úrtakið, þótt stórt væri, yrði ekki eins gott og hægt væri að fá fram með aðferðum skoðanakannana.