140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Róbert Marshall sagði hér í ræðu og andsvari áðan að sjálfstæðismenn hefðu ekki sýnt stjórnarskránni neinn áhuga, eða þessari breytingu.

Fjöldi þingmanna lagði í 43. þingmáli fram tillögur til breytinga á 79. gr. Það voru tólf sjálfstæðismenn, tveir framsóknarmenn og þrír úr Hreyfingunni, þ.e. öll Hreyfingin. Þetta fór til þeirrar nefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hv. þingmaður er 2. varaformaður í.

Auk þess hef ég skrifað 38 síðna umsögn um málið og held að það sé í fyrsta skipti sem þingmaður skrifar umsögn um þingmál. Það gerði ég vegna þess að mér gafst ekki tækifæri til að ræða málið ítarlega og mér gefst það ekki enn. Við erum núna að ræða ferlið en ekki málið sjálft efnislega. Það er náttúrlega með ólíkindum að þingmenn fái ekki að ræða stjórnarskrána efnislega.