140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um þetta ágæta mál sem hér er flutt. Ég vil byrja á að þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir að leggja málið fram og vonast til þess að það geti fengið umfjöllun, bæði hér í þingsalnum og í nefnd og til afgreiðslu ekki á morgun heldur hinn, þannig að það megi ganga til þess mannfagnaðar sem þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá yrði samhliða forsetakosningum. Það yrði auðvitað mikil lýðræðishátíð og færi sannarlega vel á því ef Alþingi gæti lagt þetta mál í þann farveg núna.

Ég var í hópi þeirra sem töldu að dómur Hæstaréttar um kosningu stjórnlagaráðsins á sínum tíma hefði í rauninni tekið undan verkefninu eða leiðangrinum það nauðsynlega ótvíræða umboð þjóðarinnar sem menn þurfa að hafa til þess að gera breytingar á grundvallarreglum okkar og lögum — stjórnskipaninni sjálfri. Mér er það þess vegna alveg sérstakt fagnaðarefni að þessi tillaga sé fram komin, bæði frá nefndinni og líka eftir gott samráð við þá sem hafa í stjórnlagaráðinu verið að vinna að þessum tillögum. Mér sýnist að skynsamlegt sé að spyrja bæði um það hvort málið í heild sinni eigi að afgreiðast hér í þinginu og síðan um einstök álitaatriði. Ég held að það sé allt of snemmt af hv. þingmönnum að gagnrýna það fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu að niðurstöður hennar verði ekki rétt túlkaðar. Það er þá umræða sem rétt væri að taka í haust þegar við höfum fengið álit þjóðarinnar á þessum atriðum.

Það skyldi þó ekki búa hér undir sá ótti að þegar þjóðin verði spurð komi í ljós að hún vilji hafa meiri áhrif á gang mála sjálf en verið hefur í okkar stjórnskipan og telji að það sé farsælla að hún ráði meiru sjálf um sín málefni? Og eins hitt hvort hér séu ekki nokkrar áhyggjur af því að séreignartilkallið til auðlinda sem verið hafa í þjóðareigu um langt skeið, að því verði hrundið með því að þjóðin kalli skýrt og greinilega eftir því að auðlindir í eigu þjóðarinnar skuli vera í sameign okkar.

Ég held að þar liggi hundurinn að mestu leyti grafinn, en held að það sé engin ástæða til annars fyrir þau ólíku sjónarmið sem uppi eru um stjórnarskrána en að hætta að þvarga um það í ræðustól Alþingis og fara einfaldlega með þetta mál út fyrir þinghúsið og út til þjóðarinnar og út í þá almennu víðtæku umræðu sem stjórnarskráin á skilið. Þar færi hver fram sín sjónarmið, með og á móti málinu í heild, með og á móti einstökum álitaefnum, skilmast með sínum rökum, taka sönsum eða ekki eftir atvikum eða eftir sjónarhóli hvers og eins og leiðum síðan fram niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi mundi augljóslega vera bundið af.

Ég hvet þingmenn mjög eindregið til þess að leyfa málinu að fara í þann farveg og standa sómasamlega að því að afgreiða málið endanlega hér á fimmtudag til þjóðarinnar en beita ekki einhvers konar tæknibrögðum eða þingtæknilegum atriðum til þess að þæfa málið fram yfir miðnætti á fimmtudag í þeim tilgangi einum að spilla því og reyna að varna því með ómálefnalegum hætti að þjóðin komist að. Ég held að þó að tíminn sé knappur sé þetta nokkuð sem gefi öllum tækifæri til að ræða einfaldlega við þjóðina sína um stjórnarskrána um ólík viðhorf í því efni og fá einfaldlega lýðræðislegan úrskurð um það hvað sé rétt og rangt að mati þjóðarinnar um þær grundvallarreglur sem við eigum að starfa eftir í þessu landi. Menn eiga ekki að hræðast það, heldur ganga óhikað og óhræddir hér út fyrir húsið og taka þá umræðu og hafa betur eða ekki eftir atvikum en una hinni lýðræðislegu niðurstöðu.

Ef málið þæfist hér eitthvað fram yfir þann tímafrest sem við höfum úr að vinna í málinu hvet ég eindregið til þess að leitað verði allra leiða til að tryggja það að engu að síður megi verða af þessari lýðræðishátíð sem ég vil kalla þetta, þá með einum eða öðrum hætti eða einhverjum þeim ráðstöfunum sem geta tryggt það að svona þingtæknileg atriði eins og á fimmtudagskvöldið fái ekki varnað því að þjóðin fái þá aðkomu að málinu sem hún fékk því miður ekki með fullnægjandi hætti við kosningu stjórnlagaráðsins samkvæmt dómi Hæstaréttar.