140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi nú einmitt telja, í ljósi þess að við eða mörg okkar treystum okkur til að spyrja þjóðina ýmissa stórra spurninga um stjórnskipun landsins, að við ættum að geta treyst þjóðinni til að taka afstöðu til þess innan þessa tíma hvort hún vilji halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða ekki.

Ég ítreka að ég tel að ef lýðræðisástin er eins mikil og hv. þingmaður talaði um ætti hann nú að vera viljugur til að endurskoða kannski afstöðu sína varðandi breytingartillöguna.

Ég mundi líka vilja spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til að spyrja þjóðina samhliða, ef hann hefur ekki áhuga á að spyrja um aðildarviðræðurnar og vill fyrst og fremst einbeita sér að stjórnskipun landsins, um hvort rétt sé að setja ákvæði í stjórnarskrána varðandi framsal á fullveldi.