140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars að hann hafði áhyggjur af því að málið næði ekki að ganga nægilega hratt fram hér á þingi til þess að koma mætti því í atkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Nú hefur komið fram í opinberri umræðu að ef þetta næst ekki í þinginu þá standi vilji til þess að slík kosning fari fram síðar. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki of miklar áhyggjur af þeim þætti málsins. Aðalatriðið er, ef ég set mig í spor hv. þingmanns, að þessi atkvæðagreiðsla fari fram eins og ég hef skilið hans orð, og væntanlega eftir sem bestan undirbúning málsins þannig að hægt sé að lesa einhverja merkingarbæra niðurstöðu úr svörunum við þeim spurningum sem beint er til þjóðarinnar. Ég tel því að þær áhyggjur sem hér hafa komið fram um tímann í orðum þingmannsins séu of miklar og vil (Forseti hringir.) kanna hvort hann geti tekið undir það.