140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geng út frá því að hv. þingmaður meini það sem hún segir varðandi það að hún sé tilbúin til þess að styðja fleiri tillögur um spurningar en þarna koma fram. Ég nefni þetta vegna þess að verið er að breyta býsna mörgu ef farið er að tillögum stjórnlagaráðs. Sum af þeim atriðum sem verið er að breyta eru ekki síður veigamikil en þau sem dregin eru út úr. Eins og ég nefndi í andsvörum áðan við hv. þm. Eygló Harðardóttur velti ég fyrir mér, ef ákveðið er að fara þá leið að keyra einhvers konar spurningavagn, hvort ekki sé þá rétt að taka inn fleiri þætti til að fá gleggri mynd af „vilja þjóðarinnar“ eins og menn munu síðan túlka hann.

Þá velti ég fyrir mér fyrri spurningunni sem sett er fram: (Forseti hringir.) Væri hv. þingmaður þeirrar skoðunar að réttara væri að spyrja beint um afstöðu fólks til tillagna stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) frekar en að orða spurninguna með þeim hætti sem hér er gert?