140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði að athuga hvort hv. þingmaður gæti aðstoðað mig við að glöggva mig á þeim spurningum sem hér er verið að ræða um, spurningar sem á að leggja fyrir þjóðina.

Í fyrsta lagi vildi ég gjarnan fá að heyra frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hvort hún leggi þann skilning í hugtakið þjóðareign að þar sé um eitthvað annað að ræða en ríkiseign eða eign hins opinbera, í fyrsta lagi það, og í hverju sá munur felst þá ef einhver munur er á.

Í öðru lagi vil ég benda á í framhaldi af þeirri spurningu sem hv. þm. Birgir Ármannsson var með áðan að það kann að vera að menn geti sagt já við þeirri spurningu sem er númer eitt, að menn vilji að lagt verði fram frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðsins þó að menn séu fullkomlega ósammála þeim málatilbúnaði öllum en vilji samt sem áður fá hann fram til þess að eiga möguleika á að fella slíka tillögu í atkvæðagreiðslu.