140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Já, forseti, hér erum við nefnilega að fjalla um mannlega hegðun og ákvarðanir og það er svo margt sem getur átt sér stað í kollinum á fólki. Það sem einn skilur með einhverjum ákveðnum hætti er ekki endilega þannig að allir aðrir skilji það nákvæmlega eins.

Mér finnst persónulega þjóðareign vera annað en ríkiseign. Ég lít til dæmis á skóla sem ríkiseign, og opinberar byggingar, landsvæði sem ríkið á, en þjóðareign finnst mér vera kannski meira eins og handritin okkar, Þingvellir og annað, og náttúruauðlindir finnst mér að eigi að vera í þeim hópi. Þar er ég ekki að tala um krækiber á einhverju landi bónda í Aðaldal, þótt vissulega mætti líta á slíkt sem þjóðargersemar.

Ég held að ég verði að fá að klára þetta í öðru andsvari.