140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórninni eru frekar mislagðar hendur að ná sátt í málum og ekki er annað hægt en að benda á þau mál sem væntanlega mun bera hæst í vikunni, sem eru breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni, hugsanleg rammaáætlun, hvenær sem hún lítur dagsins ljós, og síðast en ekki síst allt sem tengist stjórnskipuninni.

Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir það sem mér hefur sárlega fundist vanta í umræðuna og ekki síst hér í dag af hálfu stjórnarliða, að tala skýrt um það hverjar hans skoðanir eru og hans sýn á það hvaða breytingar þurfi að verða á stjórnarskránni. Þær tóna í meginatriðum ágætlega við skoðanir mínar þó að ég sé ekki endilega sammála öllu sem hann hefur sagt. En á það hefur skort hér í dag að menn þori að segja skoðanir sínar á ákveðnum þáttum stjórnarskrárinnar.

Ég hef til að mynda bent á það, meðal annars hér fyrr í dag, að stjórnarliðar hafa ekki þorað að ræða ákveðin mál, hvort sem þau tengjast hugsanlegri breytingu á ákvæði sem tengist aðild að alþjóðasamböndum, Evrópusambandinu eða öðrum samböndum, eða ýmsum öðrum þáttum, því að um er að ræða viðkvæm mál innan stjórnarflokkanna. Hvað segir það okkur annað en að þetta sé yfirklór til að sýna fram á að menn ætli að vera í yfirborðstengslum við fólkið í landinu? Það er ekki hægt að tala um bein tengsl við fólkið í landinu þegar menn geta ekki einu sinni sagt til um um hvað eigi að kjósa. Menn geta ekki sagt til um það hvaða ljósu niðurstöðu menn ætli að ræða um eftir kosningar. Það kallast ekki að vera í góðum tengslum við fólkið í landinu að bera þannig spurningar á borð.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem jafnframt er þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hvort Framsóknarflokkurinn muni einbeita sér í umræðum um stjórnarskrármálið í haust. Það er ljóst að rætt verður um stjórnarskrána í haust, menn hafa talað um það hér. Menn munu þá leggja fram frumvörp hvort sem þeir fá fyrirskipanir um það annars staðar frá eða í eigin nafni. (Forseti hringir.) Mun hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn beita sér af öllu afli í þeirri umræðu og á hvaða hátt þá?