140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög gott svar frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði í andsvari við mig, og til að rökstyðja hans orð, vil ég geta þess að borist hafa tillögur frá Landssamtökum landeigenda og Landssambandi veiðifélaga til landskjörstjórnar, og afrit sent til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Undirritaðir harma þau óvönduðu vinnubrögð sem nú eru viðhöfð við endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og teljum það lágmarkskröfu að borin sé tilhlýðileg virðing fyrir landslögum og ákvæði í gildandi stjórnarskrá um vernd og friðhelgi eignarréttar við þá vinnu.“

Getur þetta verið skýrara? Á hvaða leið er meiri hluti þingsins í þessu máli þegar slík félög sjá sig knúin til að skrifa bréf til landskjörstjórnar sem á að hafa yfirumsjón með því í landinu að kosningar séu gildar og verði gildar? Landskjörstjórnar bíður erfitt verkefni fyrst svona bréf eru farin að berast til hennar þar sem félagasambönd mótmæla því að ríkisstjórnin fari fram með þeim hætti að það sé brot á landslögum og stjórnarskrá.

Frú forseti. Þetta sýnir hve málið er viðkvæmt í samfélaginu, hvað ríkisstjórnin vill fara fram með þetta mál í miklum ófriði. Það er mikið umhugsunarefni fyrir þingið að vera að úthýsa stjórnskipunarvaldi út úr þinginu.

Mig langar að benda á hversu vanhugsaðar tillögur þetta eru. Þarna er skyndilega komið inn ákvæði um þjóðkirkjuna en í núgildandi stjórnarskrá, sem okkur ber að fara eftir, segir að komi ákvæði um þjóðkirkju Íslands til þjóðaratkvæðagreiðslu skuli (Forseti hringir.) sú kosning vera bindandi. Skyndilega er eitt ákvæði í þessum tillögum orðið bindandi á meðan önnur eru ráðgefandi.