140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni kærlega fyrir hressilega yfirhalningu. Þetta var góð og kjarnyrt vestfirsk blanda sem ég hefði gjarnan viljað að fleiri, með fullri virðingu fyrir þeim hv. þingmönnum Vinstri grænna sem hér eru í salnum, a.m.k. úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefðu hlustað á sem á tíu mínútum snerti á þeim flötum sem skipta okkur miklu máli þegar við erum að ræða þetta mál.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni varðandi auðlindaákvæðið, ég er sama sinnis og hv. þingmaður, ég tel að tryggja eigi eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum. Það er bara ekki sama hvernig það er gert. Það verður að tryggja að ekki sé verið að fara einhverja fjallabaksleið að því að þjóðnýta þann eignarrétt sem fyrir er í landinu. Ég held að þær tillögur og þær ábendingar sem við höfum verið að fá, m.a. frá félögum landeigenda o.fl., gefi skýrt til kynna að þetta ákvæði er algjörlega vanbúið eins og það er sett fram í þessu máli.

Ég spyr hv. þingmann tveggja spurninga, ekki síst vegna reynslu hans á mörgum sviðum. Fram kom í frammíkalli áðan að þessar spurningar hefðu yfir höfuð ekki verið ræddar að neinu ráði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hefur hv. þingmaður trú á því að nefndin muni fara yfir þær ábendingar sem koma fram í umræðum hér í dag og væntanlega í kvöld, að nefndin muni fara yfir þær ábendingar og athugasemdir sem við þingmenn — við erum stjórnarskrárgjafinn og eigum að rækja það hlutverk okkar af samviskusemi — setjum fram sem eru miklar og varða þær spurningar sem væntanlega verða lagðar fyrir þjóðina samhliða forsetakosningum?

Í öðru lagi spyr ég hv. þingmann hvort hann trúi því ekki að hægt sé að breyta stjórnarskránni með tilliti til þeirra atriða sem við sjálfstæðismenn höfum meðal annars komið inn á, varðandi auðlindaákvæðið, varðandi breytingarákvæði á stjórnarskránni (Forseti hringir.) o.s.frv. Trúir hv. þingmaður því að við hér á þinginu getum ekki tekið höndum saman og breytt stjórnskipuninni (Forseti hringir.) og stjórnarskránni eins og við höfum verið að ræða?