140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi ef það er svo að þær spurningar sem hér er verið að leggja fram hafa ekki verið ræddar á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það liggur þó fyrir að þeir sem skrifa upp á þessa þingsályktunartillögu bera fulla ábyrgð á þessum spurningum eins og þær voru lagðar fram.

Það blasir við hverjum einasta manni sem les þessar spurningar að þær hljóta að hafa verið skrifaðar í kjöltu þeirra þingmanna sem standa að þessum spurningum án þess að nokkuð hafi verið leitað álits hjá þeim sem eru sérfróðir á þessu svið. En það vill þannig til að fjöldi manns í okkar samfélagi hefur sérþekkingu á þessu sviði. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands — slík þekking er til í öllum háskólum landsins. Þessir háskólar hafa verið að efna til skoðanakannana. Hér eru sjálfstæð fyrirtæki, eins og Capacent, Maskína, MMR, sem hafa verið að búa til slíkar skoðanakannanir. Allir þessir aðilar hefðu getað á tíu mínútum útskýrt fyrir nefndarmönnum hvernig ætti að standa að svona spurningum. En það kann að vera að í þessum hópi sé fólk sem telji sig ekki þurfa að leita ráða og viti alltaf betur en allir aðrir og það sé þá skýringin á því að við fáum þessar vitlausu spurningar sem öllum er orðið ljóst og var orðið ljóst áður en þessi umræða hófst í dag að gætu aldrei staðið.

Spurningu hv. þingmanns um það hvort ég telji að hægt væri að breyta stjórnarskránni á vettvangi Alþingis svara ég á þann veg að ég er sannfærður um það. Þegar maður hlustar á efnislega umræðu um stjórnarskrána blasir það við að það væri hægur leikur ef menn vildu fara í það af heilindum að vinna að þessum efnum. Okkur tókst hér um bil að gera þetta 2007. Þá lágu annarlegar hvatir að baki því að ekki tókst að ljúka því verki, því miður. Þá settu menn bara járnkarlinn í tannhjólið af ástæðum sem ég rakti áðan og það kom í veg fyrir að hægt væri að gera breytingar, t.d. á auðlindaákvæðinu.

Það tókst mjög vel undir forustu Geirs H. Haardes á sínum tíma að breyta mannréttindaákvæðinu, að setja nýtt mannréttindaákvæði. Það voru mikil tímamót, (Forseti hringir.) það má segja líka mikið þrekvirki því að þar voru menn að fara inn á nýjar slóðir. En hérna, í þessum efnum, er ég sannfærður um að hægt væri að gera breytingar í sátt.