140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, þ.e. tillögu um eitt stykki nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Í mínum huga er þetta afskaplega mikilvægt ferli og mikilvægt mál vegna þess að ég tel stjórnarskrána vera mjög mikilvæga og hef margoft vísað í hana úr þessum ræðustóli, þá til að benda á að eitt og annað kunni að brjóta stjórnarskrá, t.d. skuldasöfnun ríkissjóðs án ákvæða í fjárlögum eða fjáraukalögum, t.d. hvað varðar skattlagningu aftur í tímann sem menn stundum leiðast til o.s.frv. Fallið hafa gengislánadómar sem segja að ýmislegt sem var í gangi stóðst ekki lög og jafnvel ekki stjórnarskrá. Stjórnarskráin er því mjög mikilvægt tæki fyrir almenning að búa við. Þess vegna er svo dapurlegt að vera að ræða ferli sem er í rauninni ein allsherjarhrakfallasaga, þetta er allt ein hrakfallasaga.

Kannski ég fari í gegnum það, frú forseti, hvernig hæstv. ríkisstjórn fer með vissa hluti. Hún sækir um aðild að Evrópusambandinu upp á grín. Menn þar halda að einhver alvara sé á bak við það, að þjóðin muni taka þessu fagnandi og samþykkja það einn, tveir og þrír en svo er þetta bara allt í plati. Menn skilja það hreinlega ekki á þeim bæ. Menn skilja það ekki — já, en þið sóttuð um, þið eruð að sækja um. Það er heilmikið ferli í gangi. Getur verið að þjóðin sé á móti þessu, jafnvel Alþingi?

Þegar skrifað var undir Icesave var það gert með flýti í einhverjum glannaskap. Menn geta ekki hafa lesið samninginn og allt það sem tengdist honum á þeim stutta tíma frá því að skrifað var undir og þar til það var samþykkt í þingflokkunum, það getur ekki verið. Þetta er óábyrgt og virðingarleysi fyrir hlutum.

Nú erum við að ræða stjórnarskrána sem er mér mjög heilög og það er sama virðingarleysið, þetta er allt ein hrakfallasaga. (Gripið fram í: Rétt.) Kosningin var dæmd ólögleg. (Gripið fram í: Já.) Það getur komið fyrir, jú jú, en þá eiga menn líka að sjá að sér. Nei, þá var stjórnlagaráð kosið með eins litlum meiri hluta á Alþingi og hægt var. Það var líka mjög tæpt. Svo vinnur þetta stjórnlagaráð, ágætisfólk, að tillögum að stjórnarskrá á stuttum tíma, allt of stuttum tíma. Það er eiginlega varla forsvaranlegt að semja stjórnarskrá á eins stuttum tíma og stjórnlagaráðið fékk til þess.

Svo kemur málið hingað inn í þingið og það hefur hingað til ekki verið rætt efnislega. Það var rætt sem þingsályktun. Jú, ég fékk 30 mínútur til að ræða það og með því að fara í andsvör kom ég fleiri punktum að. En þetta er náttúrlega alveg heljarinnar mikið mál sem þyrfti að ræða lengi, lengi og fara í gegnum einstök atriði. Það eru 380 málsgreinar sem tillögurnar ganga út á.

En margt gott er í þessum tillögum. Ég ætla ekki að fara að segja að þetta sé allt saman slæmt. Það er eiginlega margt gott í tillögunum og kannski meira gott en slæmt. — Nú sé ég, frú forseti, að tími minn líður það hratt að ég næ hreinlega ekki að fara efnislega í gegnum þetta, sem ég ætlaði reyndar að stelast til að gera þó að við séum að ræða ferli. En ég ætla að byrja á því að ræða ferlið.

Þannig var, frú forseti, af því að ég fékk svo lítinn tíma til að ræða þetta, að ég skrifaði umsögn um málið. Sú umsögn er 38 síður og mér er ekki kunnugt um að þingmaður hafi nokkurn tíma áður skrifað umsögn um mál sem er í nefnd sem hann er ekki í. Ég sá mig tilneyddan til að gera það vegna þess að málið fékk enga reifun á Alþingi við fyrri umr. og nú eru við ekki að ræða málið, nú erum við að ræða ferlið. (Gripið fram í.) Það er verið að ræða um — ég ætla ekki að svara því af því að ég heyrði það ekki.

Í hugmyndunum sjálfum er mótsögn. Ég hef farið í gegnum það áður. Það væri hugsanlegt að nefndin sem fær þetta til umsagnar, sem er sama nefndin og flytur það, hugleiddi að hafa efnislegu spurningarnar fyrst, þ.e. spyrja fyrst efnislega og síðan að þeim breytingum samþykktum sem þú leggur til ertu sammála stjórnarskránni, vegna þess að þau atriði sem maður greiðir atkvæði um í lið tvö eru innifalin í stjórnarskránni sem menn eru búnir að samþykkja eða hafna á undan.

Kjósandi — við berum virðingu fyrir kjósendum, frú forseti — sem kýs og segir: Ég er á móti því að þessi tillaga verði lögð fram sem tillaga, er samt sem áður spurður að því hvort hann vilji að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign o.s.frv. Af hverju, til hvers? Hann er búinn að hafna þessu. Þetta er inni í þeirri tillögu sem hann hafnaði. Ef hann samþykkir, hvað gerist þá? Þá er hann spurður aftur að því sem hann er búinn að samþykkja. Þetta er rökleysa, frú forseti, þetta er hrein og klár rökleysa og hefur ekkert að gera með 1. bekk í menntaskóla eða eitthvað slíkt, þetta er bara rökleysa. Þetta er um ferlið.

Svo gerist það, frú forseti, og ég kem inn á það í umsögn minni og það er fyrsta málið, að þjóðin greiðir aldrei atkvæði um stjórnarskrána sína með bindandi hætti. Hún mun núna í sumar, ef ferlið gengur eftir, greiða atkvæði um tillögu stjórnlagaráðs, samþykkja hana eða fella. Enginn hefur sagt mér hvað gerist ef hún verður felld. Verður þá bara (Gripið fram í: Hent.) öllu hent? (Gripið fram í: Já.) Margt gott var samt í þessu. Ef hún verður samþykkt, hvað þá? Verður þá bara allt samþykkt? Líka það slæma sem er í þessu? Það gengur ekki. Þetta hreinlega gengur ekki.

Ef þjóðin samþykkir tillöguna og segi maður að þetta verði lagt fram á Alþingi og síðan samþykkt sem síðasta mál fyrir kosningar, því að rjúfa þarf þing samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og kjósa verður nýtt þing — hvað skyldu kjósendur hugleiða í því sambandi þegar kosið verður til nýs þings? Það er um hvernig núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig, hvort ekki sé ástæða til að skipta um ríkisstjórn, kjósa nýja flokka o.s.frv. Menn eru ekkert að hugsa um það að verið sé að kjósa um stjórnarskrá. Menn eru heldur ekkert að kjósa um stjórnarskrá. Svo er fyrsta mál á dagskrá eða fljótlega eftir að nýtt þing kemur saman — þá taka menn þetta mál upp aftur og þá verður það sannfæring hvers þingmanns á því þingi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem þá verður enn í gildi, sem ræður því hvort þetta mál verður afgreitt sem stjórnarskrá eða ekki. Þjóðin hefur ekkert með það að gera. Hún kaus ekki það fólk til að afgreiða stjórnarskrá heldur til að veita ríkinu forsjá næstu fjögur árin, næsta kjörtímabil. Það er mjög stór galli.

Til að laga þetta hef ég flutt frumvarp sem er að finna á þskj. 43 um að ákvæðum um breytingu á stjórnarskrá verði breytt þannig að breytingin fari í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá breytingu er hægt að samþykkja strax þegar nýtt þing kemur saman og svo getur það þing samþykkt þessa stjórnarskrá eða einhverja aðra og sett hana í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig — ég hef ekki séð neina aðra leið — og aðeins þannig getur þjóðin greitt atkvæði um nýju stjórnarskrána sína með bindandi hætti þannig að hún hafi eitthvað að segja.

Hvað varðar þessar tillögur — eins og ég sagði er ég búinn að fara í gegnum þetta og vil geta þess að umsögn mín er náttúrlega á netinu, menn geta nálgast hana þar og farið efnislega í gegnum þessi mál. Eitt rak ég augun í, það er sumt gott, til dæmis Lögrétta, sem ég er mjög ánægður með nema að það er stór galli hvernig hún er kosin. Hún er kosin af Alþingi. Mér finnst að fullskipaður Hæstiréttur eigi að vera Lögrétta. Það á að skilgreina hann sem Lögréttu og hann á að taka fyrir þau þingmál á Alþingi sem þingmenn vísa til Lögréttu en líka mál sem borgarar fara með í gegnum dómskerfið og telji að lög brjóti stjórnarskrá. Það er mjög oft sem það kemur upp. Það vantar nefnilega stjórnlagadómstól á Íslandi.

Þá er þess að geta, sem ég hef komið inn á áður, að í 86 málsgreinum af 300 er vísað í það að Alþingi skuli gera eitthvað, til dæmis það sem ég hef lesið áður: „Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Hvað gerist ef engin lög eru sett? Þá er velferðin ekki tryggð. Þarna ætti að standa að sjálfsögðu: Börn eiga rétt á umönnun og framfærslu. Þannig að það liggi fyrir að það sé vilji stjórnarskrárinnar.