140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þarna kemur hún inn á það sem ég tel vera eiginlega veigamesta atriðið í hugmyndum stjórnlagaráðs og veigamesta gallann á þeim, þ.e. að vera að framselja vald til Alþingis. Þetta á að vera stjórnarskrá, þetta eiga að vera grunnlög sem Alþingi á að byggja ofan á en ekki fylla upp í. Það getur verið mjög hættulegt vegna þess að stjórnarskránni er ætlað að tryggja borgarana fyrir bæði Alþingi og ríkisvaldinu í heild sinni. Það er hlutverk stjórnarskrárinnar og sérstaklega varðandi mannréttindin. Ef Alþingi á að fylla upp í stjórnarskrána og Alþingi gerir svo aftur reglugerðarheimildir í lögum sem gerir það að verkum að framkvæmdarvaldið er farið að túlka lög og setja ákvæði, þá getur það verið stórhættulegt, ekki bara lýðræðinu heldur mannréttindunum vegna þess að þar með er búið að útvatna það mannréttindaákvæði sem stjórnarskráin á að tryggja með því að heimila þessum og hinum að framfylgja því og breyta því. Ég tel þetta ekki bara vera ólýðræðislegt, þetta er mjög ólýðræðislegt og þetta er líka stórhættulegt vegna þess að stjórnarskránni er ætlað að tryggja fólki þau mannréttindi sem standa í stjórnarskránni og það á ekki að vera neinn vafi á því hvort fangelsa megi menn, selja megi fólk mansali o.s.frv. Enginn vafi á að vera á því að þessi atriði séu ekki í gildi og ekki sé búið að þynna þau með einhverjum reglugerðum.