140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek hjartanlega undir síðustu orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Ég hef bent á þennan þátt, „tek ekki afstöðu“, og landskjörstjórn tók alveg af vafann um það í morgun á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þetta á að sjálfsögðu ekki að vera þarna inni því að þeir sem ekki taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu, verði hún að veruleika, taka jafnframt ekki afstöðu þar sem þeir segja hvorki já né nei.

Þingmaðurinn fór vel yfir þetta mál og benti svo sannarlega á að ekki er verið að laga þá ágreiningskafla sem eru í núverandi stjórnarskrá heldur tók stjórnlagaráð sig til og skrifaði nýja stjórnarskrá.

Varðandi þjóðarviljann sem Samfylkingunni er svo tíðrætt um og hver hann er og þá lýðræðisást sem Samfylkingin hefur á tyllidögum, verður það kannski svo að lítill áhugi verður fyrir þessari þjóðaratkvæðagreiðslu þegar upp er staðið. Því eru landsmenn ekki hreinlega frekar að berjast við það að halda heimilum sínum og leita sér að atvinnu, þeir sem eru atvinnulausir o.s.frv., heldur en að eyða bæði orku og púðri í að taka einhverja afstöðu til nýrrar stjórnarskrár? Það var ekki stjórnarskráin sem felldi allt hér á landi. Þess vegna er svo einkennilegt hvernig ríkisstjórnin getur haft þetta mál endalaust á dagskrá þingsins, úthýst því úr þinginu o.s.frv.

Nú hefur hv. þingmaður lengri þingreynslu en sú sem hér stendur. Þess vegna langar mig að spyrja: Er ekki niðurlægjandi fyrir þingið að þurfa að leggja það í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og kemur fram í 1. tölulið, hvort Alþingi megi leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá?