140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna endurspeglast ef til vill hversu illa unnar þessar tillögur eru vegna þess að við hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir leggjum hvor sinn skilninginn í til dæmis spurningu nr. 1.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Minn skilningur er sá að þarna sé beinlínis verið að fara með þá spurningu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin sé tilbúin að veita Alþingi heimild að leggja fram frumvarp. Við, 63 þingmenn, höfum nú þegar þá heimild og fengum þá heimild í síðustu kosningum að leggja fram þau frumvörp sem okkur raunverulega sýnist og fara efnislega eftir eigin höfði. Þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að þetta skuli vera orðað svona en líklega verður þetta til þess að þetta verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er að vísu ráðgefandi. Þá spyr ég: Búið er að reikna út að kostnaður við þetta ferli verði allt að 1.000 milljónir. Hvað gerir ríkisstjórnin ef þetta verður fellt?

Eins höfum við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd spurt um það atriði að leggja á eitthvert plagg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er endanlegt vegna þess að þarna stendur að það eigi eftir að lesa plaggið saman við lög og alþjóðasamninga. Enginn fræðimaður getur bent á sambærilegt ákvæði í nokkru einasta landi sem haldið hefur þjóðaratkvæðagreiðslur sem sýnir enn frekar hve málið er komið langt út í skurð og langt frá stjórnskipunarvaldinu sjálfu sem er hér.