140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski fyrst um það sem í mínum huga er dálítið sérstakt. Við sitjum með vinstri stjórn og þeir flokkar sem þar ráða ríkjum hafa oftar en ekki rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur og hafa verið hlynntir þeim og talið að þær væru samtal við þjóðina og til þess fallnar að ná fram ýmsu sem betur mætti fara.

Þá hlýtur hins vegar að skjóta æðiskökku við — og nú hlýt ég að gleðja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur — að þessi sami meiri hluti þorði ekki 16. júlí 2010 að samþykkja að þjóðin fengi að greiða atkvæði um það hvort við ættum að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. (Gripið fram í: Það er rétt.) Og núverandi stjórnarflokkar þora ekki með þá spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu einhverra hluta vegna. (Gripið fram í: Rétt.)

Þá hlýtur að koma upp þessi spurning: Af hverju skiptir bara sumt þjóðina máli sem má spyrja hana um og er þarft að spyrja hana um og þorandi að fara með í samtal við þjóðina, en annað sem ekki hentar er ekki þorandi að fara með í samtal við þjóðina? Þetta er grundvallaratriði í þeim farsa sem mér finnst þetta ferli um stjórnarskrána vera í. Nú hentar að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu með óljósar spurningar sem hljóta að taka breytingum en til að spyrja grundvallarspurninga sem margir telja að skipti líka máli, gallharðra spurninga upp á já og nei er ekki vilji og var ekki vilji til og virðist ekki vera vilji til hjá núverandi meiri hluta sem samt er hlynntur samtali við þjóðina. (Gripið fram í.)