140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessar spurningar. Þær eru það margar að ég verð eiginlega að velja úr þeim fáeinar til að svara því að tímamörkin eru það þröng samkvæmt þingsköpunum að ég kemst með engu móti yfir allar þær spurningar sem þingmaðurinn bar fram í fyrirspurn sinni.

Hann spyr um skilning á hugtakinu þjóð. Ég held að við þurfum ekki að eyða miklum tíma í að velta fyrir okkur skilgreiningu á þjóð því að aðalspurningin sem fyrir okkur vakir í þessu máli er miklu frekar spurningin um þjóðareign. Hvað merkir þjóðareign og er einhver munur á þjóðareign og ríkiseign? Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni að ég teldi svo vera. Þessi vegferð snýst ekki síst um að tryggja það í stjórnarskránni að tilteknar sameiginlegar auðlindir verði lýstar þjóðareignir og þar með sé ekki heimilt fyrir ríkið að selja þær, veðsetja þær eða ráðstafa þeim varanlega til annarra. Ég held að þetta sé kjarni málsins í umræðunni um þjóð og þjóðareign.

Þingmaðurinn spyr sömuleiðis um skilning á þeim skilaboðum sem við viljum í raun og veru fá frá þjóðinni. Er hægt að biðja þjóðina um að veita annars vegar álit sitt á plagginu í heild og hins vegar afstöðu sína til einstakra tillagna sem þar eru innan borðs? Þetta er eðlileg spurning. Ég tel að það sé mikilvægt veganesti fyrir Alþingi sem á endanum þarf að leggja fram, fjalla um og samþykkja tillögu til breytinga á stjórnarskránni að fá leiðsögn frá þjóðinni um það hvort hún telji þetta plagg í grundvallaratriðum framfaraskref og hvort eigi að nota það sem meginleiðsögn. Síðan eru þarna atriði sem skipta miklu máli varðandi þjóðkirkjuna, jafnvægi atkvæða, náttúruauðlindir (Forseti hringir.) sem þjóðareign og fleira sem getur líka skipt máli fyrir hina endanlegu útfærslu (Forseti hringir.) þannig að við vitum hvort það er samhljómur í niðurstöðu þjóðarinnar um plaggið í heild og þessum spurningum.