140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:06]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held reyndar að hún sé mjög mikilvæg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það fyrir fram hvernig beri að túlka þá niðurstöðu sem kemur fram. Ég held t.d. að ef raunin verður sú að meiri hluti þjóðarinnar eða þeirra sem taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu greiðir atkvæði með því að tillaga eða frumvarp stjórnarráðs skuli lagt fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá hafi það þá þýðingu að Alþingi verði í kjölfarið að líta svo á að það sé það meginplagg sem ráði för við þær breytingar á stjórnarskránni sem unnar verða í frumvarpsformi á næsta vetri.

Síðan kann það að koma út úr niðurstöðum einhverra þessara fimm spurninga — ég færði reyndar fyrir því rök að ég teldi að við mætti bæta sjöttu spurningunni um málskotsrétt forseta — að þjóðin sé þeirrar skoðunar að þótt hún sé fylgjandi meginplagginu, meginfrumvarpinu, þá sé hún ekki sammála öllum þeim atriðum eða spurningum sem fram koma og þá þarfnist þau tilteknu atriði sérstakrar skoðunar af hálfu Alþingis og Alþingi hafi þá í raun og veru umboð þjóðarinnar til að gera breytingar á þeim ákvæðum. Það er mín persónulega skoðun að þetta séu í raun og veru þau skilaboð sem menn eigi að fara með út úr þessari kosningu.