140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ræðu hans sem var á margan hátt ágæt og málefnaleg. Þó að við hv. þingmaður séum ekki sammála um alla hluti þá er greinilegt að hann hefur velt fyrir sér orðalagi spurninganna í þeirri könnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér eru ráðagerðir um. Mér heyrðist hann ekki, a.m.k. hvað fyrri spurninguna varðar eða fyrri lið atkvæðagreiðslunnar, vera á ósvipuðum slóðum og ég varðandi það að hreinlegra væri að spyrja um afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs: Ertu samþykkur eða andvígur tillögum stjórnlagaráðs? — frekar en að fara eins og köttur í kringum heitan graut með þeirri tillögu sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt fyrir.

Ég vil biðja hv. þingmann að fjalla aðeins nánar um afstöðu sína hvað þennan þátt tillögunnar varðar, þ.e. fyrri töluliðinn sem lýtur að afstöðu til þess, eins og orðað er í tillögunni, hvort leggja eigi fram frumvarp sem byggi á tillögum stjórnlagaráðs.

Þá vildi ég líka spyrja hv. þingmann í tengslum við það hvort hann ásamt meiri hlutanum á þingi hefði ekki talið rétt að fela stjórnlagaráði að semja tillögur og hvort það hefði ekki verið ætlunin að þær yrðu síðan lagðar fram sem frumvarp á þessu þingi á Alþingi og af hverju hann og fleiri (Forseti hringir.) hefðu ekki einfaldlega lagt fram frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) sem fengi þá eðlilega meðferð samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum.