140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir fyrirspurn hans. Hún er mjög einföld í rauninni: Af hverju er ekki bara lagt fram frumvarp stjórnlagaráðs óbreytt? Hann hefur tekið þátt í meðferð þessa máls í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þekkir þá stöðu og umræðu betur en sá sem hér stendur.

Ég er þeirrar skoðunar og lýsti því í ræðu minni að sú vinna sem stjórnlagaráð hefur unnið og lagt fram sé í heild sinni mikið framfaraskref. Menn geta haft mismunandi sjónarmið og hef ég athugasemdir við einstakar greinar eins og gengur. Þannig er í raun gangur löggjafarstarfsins, liggur mér við að segja, ævinlega. Við fáum í hendur frumvörp sem geta verið skref í rétta átt en hafa að geyma ákvæði sem við teljum að betur megi fara. Við reynum í störfum okkar í nefndum þingsins að gera á þeim breytingar og bragarbót alla daga og allar vikur.

Ég lít svo á og það er mín skoðun að við séum með upplegg í höndum að því frumvarpi sem unnið verður með næsta vetur og það sé ekki nema fram komi skýr neikvæð afstaða þjóðarinnar til þess sem við förum yfir í einhvern annan farveg. Ég tel að við séum í raun og veru sammála um að langhreinlegast sé að leggja þetta mál fyrir þjóðina núna og spurningin sé einföld: Styður þú frumvarp stjórnlagaráðs og lítur þú svo á að það sé það frumvarp sem Alþingi eigi að vinna með næsta vetur?