140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var eiginlega að reyna að nálgast með spurningu minni var akkúrat sú hugsun að þegar sú ákvörðun var tekin af meiri hlutanum á þessu þingi að fela svokölluðu stjórnlagaráði tiltekið verkefni, sem var gert vorið 2011 fyrir rétt rúmi ári, þá fólst í því hugmynd um að það ætti, eins og menn hafa orðað það í þessum sal, að útvista þessu verkefni til annars hóps en situr á þingi, þ.e. semja frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Mér hefur heyrst á hv. þingmanni, ég virði það að hann kann að hafa athugasemdir við einstakar greinar og allt það, og mörgum flokksfélögum hans að þeir séu þeirrar skoðunar að það hafi verið býsna góð tillaga sem kom frá stjórnlagaráði. Ég velti því fyrir mér: Af hverju var ekki gengið beint til verks og frumvarp flutt, sem byggði á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, breytingar gerðar á því eftir því sem nauðsynlegt var talið? Það er vísað til þess í tillögunni sem hér liggur fyrir að það þurfi að samræma gagnvart lögum og alþjóðasamningum — reyndar er það orðalag túlkað með mismunandi hætti en látum það vera.

Í orðalagi spurningarinnar felst áskilnaður um að ýmsu verði breytt. Spurning mín er: Var eitthvað því til fyrirstöðu að málið fengi málsmeðferð á þinginu og breytingar yrðu gerðar á því þar og það yrði síðan borið undir þjóðaratkvæði frekar en fara með skjal í þjóðaratkvæði sem sagt er í öðru orðinu að eigi að vera einhvers konar grunnur en í hinu orðinu er sagt að eigi eftir að breyta?