140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitamál þeim tengd.

Ég ætla ekki að fara efnislega í þessar tillögur stjórnlagaráðs heldur ræða beint þau álitaefni sem hér eru. Það hefur komið fram margvísleg gagnrýni á uppsetningu þessa máls, gagnrýni sem snýr að því hvernig hlutirnir eru orðaðir, hversu flókin atkvæðagreiðslan er eða ætlað er að hún verði, á orðalag og annað slíkt. Ég ætla einkum að gera tvennt að umtalsefni hér. Annars vegar fyrstu spurninguna um náttúruauðlindir þar sem spurt er: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign? Þar getur maður valið um að segja já eða nei eða að taka ekki afstöðu. Og hins vegar fjórðu spurninguna þar sem spurt er: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt?

Ef við snúum okkur að fyrra atriðinu sem ég ætla að gera að umtalsefni þá finnst mér gæta mikillar ónákvæmni þar. Allir flokkar hafa lýst því yfir að þeir vilji einhvers konar auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Sumir flokkanna hafa gert það að miklu baráttumáli sínu en aðrir hafa lýst því skýrt yfir, þó svo að það sé ekki baráttumál hjá þeim, að æskilegt væri að koma fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskránni.

Spurningin: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign? Það er alls ekkert augljóst hvað þetta orðalag þýðir. Ef við skoðum aðeins hverjar eru helstu náttúruauðlindir Íslands þá er það fiskurinn í sjónum, það eru vatnsréttindi, það er orkan í iðrum jarðar, þ.e. heita vatnið, land hefur hingað til verið kallað náttúruauðlind hér og síðan eru það náttúruauðlindir sem lúta að lofthjúpnum þó svo að við sjáum kannski ekki augljós efnahagsleg not fyrir það núna, ekki nema þau að það eru verðmæti fólgin í því að hafa hreina náttúru, hreint loft. Reyndar er það svo að þetta er að einhverju marki til dæmis í flugi og síðan verður þetta innleitt í iðnað held ég á næsta ári, þessir svokölluðu losunarkvótar. Við getum því sagt að þar séum við að verðleggja náttúruauðlindir.

Þau vafaatriði eða spurningin sem mér dettur í hug þegar ég les þetta með náttúruauðlindirnar, segjum sem svo að þjóðin velji að í stjórnarskránni verði ákvæði sem segi að náttúruauðlindir séu lýstar þjóðareign, hvað erum við þá að tala um? Við vitum til dæmis að í kringum 30% af vatnsréttindum á Íslandi eru í einkaeign, um 70% eru í opinberri eigu. Er þá verið að tala um það, ef þjóðin svarar þessari spurningu játandi, að það sé ákall til stjórnmálamanna um að færa þessi 30% vatnsréttindi yfir í ríkiseign eða þjóðareign eins og hér er sagt?

Þá vaknar líka spurningin: Hvað er þjóðareign? Er þjóðareign eitthvað sem verður þá ríkiseign eða hvernig á að framfylgja þessu? Erum við að tala um að land í einkaeign, t.d. bújarðir með merkilegum náttúruminjum sem hafa augljóst auðlindagildi vegna sérstöðu sinnar, eða bara túnin sem bóndinn heyjar, sem er tvímælalaust náttúruauðlind? Erum við að tala um að það eigi að taka þetta úr séreignarrétti og yfir í eitthvað sem heitir þjóðareign og á ríkið þá að halda utan um það?

Eins og sést á þessari umfjöllun minni er mjög fljótt hægt að koma af stað alls konar flækjustigum með hugtakið „náttúruauðlindir í þjóðareign“. Að mínu viti er þessi spurning, sem er önnur spurninganna sem ég ætla að fjalla um í fyrstu ræðu minni, augljóslega gölluð vegna þess að ekki er vitað hvað átt er við með þessu. Það er því ekki hægt að segja já og það er ekki hægt að segja nei og sennilega verður maður að svara þannig að maður taki ekki afstöðu. Það væri heilbrigða svarið við því. En þrátt fyrir þetta eru allir stjórnmálaflokkar með einhvers konar hugmyndir um að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, um það er ekki deilt.

Þá er það spurningin: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Þetta er nokkuð merkileg spurning. Þetta er sennilega runnið úr ranni samfylkingarmanna. Það er nefnilega svolítið merkilegt að þetta skuli vera runnið þaðan vegna þess að við sjáum að um leið og Samfylkingin kemur fram með svona spurningu til þjóðarinnar og vilja um að hér sé jafnt atkvæðavægi þá berst Samfylkingin á móti jöfnu atkvæðavægi í Evrópusambandinu vegna þess að það er algjörlega ljóst að ef Ísland gengi í Evrópusambandið og ef þar væri jafnt atkvæðavægi fengi Ísland ekki neinn fulltrúa, þ.e. ekki heilan fulltrúa og hálfir fulltrúar eru ekki margir á þingi þó svo að þeir finnist. Eins og sést á þessu er þarna viss tvískinnungur í málflutningi sósíaldemókratanna hér á Íslandi.

Um áratugaskeið eða frá upphafi hefur það verið þannig að atkvæði á landsbyggðinni og atkvæði á höfuðborgarsvæðinu, hér í fjölmenninu, hafa ekki vegið jafnt. Hugsunin með því er sú að það sé ekki einungis þjóðin sem þurfi að hafa sína fulltrúa heldur allt landið, að þeir sem búa á fámennum svæðum, t.d. eins og á Vestfjörðum, geti átt sinn fulltrúa á Alþingi til að koma fram með sín mál óháð því hversu margir eða fáir búa á Vestfjörðum. Í þessu liggur sá vilji, ef sagt er já að þjóðin vilji að atkvæðavægi sé jafnt hjá þjóðinni, að þingmannafjöldinn verði langmestur á höfuðborgarsvæðinu og að þeir íbúar sem búa á fámennu landsvæði fái ekki sína fulltrúa inn á þing til að flytja sín mál eða raunverulega taka jafnvirkan þátt í löggjafarhlutverkinu og hefur verið hingað til.