140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hv. þingmaður kom í máli sínu lítillega inn á það sem sneri að atkvæðavægi og jöfnun atkvæða. Mig langar að forvitnast aðeins hjá hv. þingmanni um hvort hann hafi kynnt sér hvernig þessu er háttað í öðrum löndum, hvort ekki sé almennt tryggt með einhverjum hætti að dreifbýlli svæði hafi aukið vægi. Maður þekkir hvernig þetta er í Bandaríkjunum, til að mynda eru engir þingmenn frá Washington vegna þess að þar er öll stjórnsýslan, þingið og annað því um líkt.

Er ekki nauðsynlegt til þess að gæta byggða- og búsetujafnræðis að hafa í stjórnarskrá eitthvert ákvæði sem tryggir þetta? Væri ekki eðlilegra að einhverju leyti að spyrja í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin mundi ekki vilja setja inn einhvers konar búsetujafnrétti eða byggðajafnrétti? Þá væri hægt að vinna út frá því.

Mig langaði að fá þennan byggðavinkil á þetta og fá að vita hvort hv. þingmaður teldi fyrirliggjandi tillögur að stjórnarskrá styrkja þetta hugtak, búsetujafnrétti og byggð í öllu landinu, eða veikja byggð í öllu landinu. Gæti hv. þingmaður farið aðeins dýpra ofan í það en hann gerði í ræðu sinni áðan?