140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágætar spurningar. Ég held að það sé alveg rétt að atkvæðamisvægi getur orðið svo mikið að þurfi leiðréttingar við. Það er ekkert mjög langt síðan að atkvæði voru leiðrétt á Íslandi, það þótti til dæmis að Vestfirðir væru komnir með algjörlega óeðlilega mikið atkvæðavægi miðað við Reykjavík og því var breytt. Ég held að þetta þurfi alltaf að vera í skoðun og alltaf þurfi að vera að athuga þessa hluti. Eins og heyra mátti á máli mínu er ég þeirrar skoðunar að til að tryggja jafnræði til búsetu þurfi visst ójafnvægi í atkvæðamagni, nákvæmlega eins og þetta hefur til dæmis verið leyst innan Evrópusambandsins og hérna.

Svo er spurningin: Þarf að breyta stjórnarskránni? Er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að breyta stjórnarskránni? Um það vil ég segja: Ég held að það sé æskilegt að fara út í breytingar á stjórnarskránni en þær breytingar verða að vera mjög vandaðar, þær þurfa að taka tíma og þær þurfa að gerast hægt. Það er ekki þannig í lýðræðisríki að stjórnarskrá sé bara skrifuð alveg frá grunni og hent inn eins og hér er verið að gera. Það hefur aldrei gerst. Þetta hefur gerst eftir byltingar þar sem er verið að skipta algjörlega um stjórnarfar en ekki svona. Og ég er á móti því að gera þetta svona.

Er allt slæmt? Nei, alls ekki. Ég held að í flestum atriðum, ef maður skoðar greinarnar algjörlega einangrað, geti maður fallist á mjög margt og flest en það er samhengið sem þetta er sett í og þessi mikla breyting sem ég er á móti. (Forseti hringir.) Hvað varðar röð spurninga er það hárrétt athugað hjá þingmanninum, það skiptir máli hvernig röðin (Forseti hringir.) á spurningunum er.