140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi hjá þessari ríkisstjórn að þetta mál sé rætt að kvöldi til og fram á nótt, komin er heimild fyrir því að hér megi standa næturfundur þegar sjálf stjórnarskráin er til umræðu eða við skulum frekar segja tillögur frá meiri hlutanum í þá átt að umbylta stjórnarskránni, því að hér er lagt upp með að það sé búið að skrifa nýja stjórnarskrá en ekki verið að breyta þeirri sem í gildi er sem ég hef gagnrýnt alla tíð.

Ég sakna stjórnarliða hér í salnum því að eins og flestir vita hefur Samfylkingin borið mikla lýðræðisást í brjósti gagnvart þessu máli og þjóðaratkvæðagreiðslum yfir höfuð. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki látið sjá sig í þinghúsinu í dag og í kvöld og það undrar mig mjög vegna þess að þetta er hennar hjartans mál og hefur hún sett allt á oddinn til að hægt sé að halda þessu máli hér áfram í ófriði en ekki friði. Hennar landgöngumenn eru nú eitthvað farnir að týna tölunni því að í þinghúsinu sést varla nokkur einasti aðili sem tilheyrir þessum brátt fallandi stjórnarmeirihluta. Ég minni á það, vegna þess að spuninn er keyrður þannig að við í stjórnarandstöðunni séum að tefja þetta mál, að þetta mál var komið til þingsins, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í haust. Þar hefur málið velkst fram og til baka án umræðu, nefndin hefur einungis fengið til sín gesti og engin efnisleg umræða farið fram þar til að allt í einu nú rétt fyrir páskahlé þingsins var drifin af stað þessi þingsályktunartillaga, það átti að afgreiða hana í miklum flýti og taka hana á dagskrá þingsins með afbrigðum sem var fellt svo eftirminnilega í síðustu viku þannig að málið komst ekki á dagskrá fyrr en núna.

Það er algjörlega fráleitt þegar ríkisstjórnarflokkarnir kenna stjórnarandstöðunni um það að við viljum ekki breyta stjórnarskrá eða ekki hleypa þessu máli á dagskrá þingsins vegna þess að því þarf að ljúka fyrir 30. mars vegna ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur varðandi tímafrest. Ekki er hægt að sitja undir þeim málflutningi að við séum að skemma málið fyrir ríkisstjórninni vegna þess að hún ber sjálf ábyrgð á því hversu seint málið er fram komið.

Það hefur verið rætt í fjölmiðlum hvers vegna þetta er lagt til núna og er það líklega komið til vegna þess að Hreyfingin hefur sett þau skilyrði að þetta skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landskjörstjórn á erfitt verk fyrir höndum þar sem þetta var ekki komið á dagskrá þingsins í morgun þegar landskjörstjórn kom fyrir nefndina. Þá gat landskjörstjórn einungis gefið frá sér óbindandi álit vegna þess að málið var ekki formlega þingtækt fyrr en í dag þegar þingfundur var settur, en í því áliti sem þó kom frá landskjörstjórn í morgun voru mjög margar athugasemdir og gerði landskjörstjórn verulegar athugasemdir við nánast hvern einasta lið í þessari þingsályktunartillögu. Tíminn er að hlaupa frá ríkisstjórninni, það eru einungis morgundagurinn og fimmtudagurinn til að klára þetta mál því að eftir umræðuna í kvöld eða nótt þarf það að fara fyrir nefndina til frekari umræðu þar.

Ég ætla að fara fram á það í nefndinni að það verði fullkominn aðskilnaður á milli forsetakosninganna annars vegar og hins vegar þeirra tillagna sem hér liggja fyrir því að hér er ekki á nokkurn hátt búið að gefa út vinnureglur um hvað ógildi kosningaseðil. Hér er verið að leggja fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu spurningar í sex liðum og hvergi neitt útskýrt hvað það þýðir eða hvernig atkvæðaseðill verður ógildur.

Það hefur verið gagnrýnt í nefndinni að ekki liggi fyrir kostnaðarmat á því hvað þessi þjóðaratkvæðagreiðsla muni kosta samhliða forsetakosningunum en það á eftir að hlaupa á tugum milljóna, sérstaklega í ljósi þess að í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur eru ákvæði um að Alþingi skuli standa að því að gefa út kynningarefni um það efni sem á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég spyr því: Hverjir eru bærir til þess að meta það og velta upp bæði jákvæðum og neikvæðum hliðum við þær spurningar sem koma til með að liggja fyrir í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu því að hér eru valmöguleikarnir já og nei? Hér er um mjög gallaða tillögu að ræða, hér er um mikla tímaþröng að ræða og ég verð að taka það fram, frú forseti, að það er einungis á ábyrgð ríkisstjórnarinnar því að hefði þetta verið forgangsmál hjá ríkisstjórninni ætti þetta mál að vera komið miklu fyrr á dagskrá.