140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Þetta er auðvitað dálítið knappt form að ræða um stjórnarskrána í þessum stíl, að fyrst höfum við tíu mínútur og síðan fimm mínútur þegar við erum að fjalla um þessi mál.

Eins og fram hefur komið er okkur enn meiri vandi á höndum. Líkt og hv. þingmaður rakti kom fram að engin efnisleg umræða hafi í rauninni átt sér stað innan nefndarinnar um stjórnarskrármálið. Það er auðvitað dálítið sérkennilegt. Ég heyri að vísu suma sem hafa verið formælendur tillögunnar segja sem svo að ekki þurfi að fara fram efnisleg umræða á þessu stigi vegna þess að nú sé eingöngu verið að leita álits hjá þjóðinni. En til að hægt sé að leita álits hjá þjóðinni á tilteknum málum þurfa menn að hafa gert sér í hugarlund hvað það er sem eru þá stóru álitamálin í stjórnarskránni sjálfri. Þess vegna vekur það athygli um hvað er spurt en ekki síður hitt um hvað ekki er spurt.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort komið hafi fram í nefndinni einhverjar hugmyndir um aðrar spurningar. Ég veit að hv. þingmaður hefur lagt fram ágæta breytingartillögu í þá veru. En var það ekki rætt á neinum tímapunkti með hvaða hætti ætti kannski að spyrja annarra spurninga?

Svo er annað sem vekur líka mikla athygli og það er þessi undarlega spurning þar sem sagt er að menn hafi möguleika á að merkja í reitinn þar sem fram kemur að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hafi verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Hér hlýtur eitthvað að búa að baki, einhver hugsun, eitthvað sem menn hafa verið að velta upp. Þótt ekki hafi farið fram efnisleg umræða langar mig að spyrja hv. þingmann: Kom það ekki fram til dæmis hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvaða lög það væru sem þyrfti mögulega að breyta, eða hvaða alþjóðasamningar það væru? Er verið að blúnduleggja aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu til dæmis?