140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér eru komnar fram margar spurningar sem sýna hvað við þingmenn erum orðin aðþrengd í tíma með að ræða þessar tillögur hér sem hefði þurft náttúrlega fleiri vikur til að ræða, en ég skal reyna að byrja að svara spurningunum.

Ég er með Hreyfingunni að vísa í almenna fjölmiðlaumfjöllun sem komið hefur fram undanfarnar vikur að það sé skilyrt frá Hreyfingunni að styðja ríkisstjórnina gegn því að þetta verði sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða við skulum orða það þannig að það verði gerð tilraun til þess að koma þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef þá tilfinningu að ríkisstjórnarflokkana langi ekkert rosalega mikið til að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram heldur er verið að uppfylla ákveðið skilyrði þessa litla stjórnmálaflokks á þingi gegn stuðningi við ríkisstjórnina, en ég vísa annars almennt til fjölmiðlaumfjöllunar um málið.

Þingmaðurinn spurði hvers vegna landskjörstjórn skyldi hafa komið fyrir nefndina í morgun áður en málið var tekið á dagskrá þingsins. Ég vísaði til þess í ræðu minni að landskjörstjórn gat ekki staðfest neitt eða lagt fram endanlegt plagg vegna þess að þetta er í svo lausu lofti. Landskjörstjórn veit að þetta vofir yfir, hún þarf að taka þetta formlega fyrir þegar fyrri umr. er lokið og koma þá aftur fyrir nefndina og getur þá líklega skilað af sér athugasemdum sem hægt er þá að nota í til dæmis nefndarálit okkar og annað. En þetta sýnir hvað málið er keyrt áfram af miklu offorsi í mikilli tímaþröng. Eins og ég kom inn á í ræðu minni þarf að ljúka málinu fyrir kl. 12 á miðnætti næstkomandi fimmtudag, eftir tvo sólarhringa, til að hægt sé að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vegna lagaákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Réttur til lífs og réttur til að lifa með reisn er einhver ægilega flott heimspeki sem sett var inn af stjórnlagaráði. Það hefur líka verið gagnrýnt að við mannréttindakaflanum á ekki að hreyfa en stjórnlagaráð tók því þannig að það þyrfti að skrifa nýja stjórnarskrá og umbylta mannréttindakaflanum.