140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka þetta mál aftur til haustsins vegna þess að fræðimenn hafa verið að koma fyrir nefndina alveg frá því að málið barst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar eiga í hlut flestir af færustu lögfræðingum landsins á ýmsum réttarsviðum. Ég varpaði þessari spurningu fram á fundinum í morgun: Man einhver eftir einhverri jákvæðri umsögn? Og ekki var hægt að benda á einn fræðimann sem hefur yfir höfuð litist á tillögurnar.

Hvað varðar það málefni sem nú er til umræðu, þær spurningar sem settar eru fram í þingsályktunartillögunni, þá er það sama sagan. Þeir aðilar sem komið hafa fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa verið mjög gagnrýnir á uppsetninguna á þessu. Þeim þykir orðalagið mjög óskýrt, mjög loðið, mjög leiðandi. Þetta er það illa sett upp að landskjörstjórn tók af skarið í morgun varðandi liðina í þessum spurningum. Liðurinn „tek ekki afstöðu“ er til dæmis úti vegna þess að ekki er um að ræða skoðanakönnun samkvæmt planinu heldur atkvæðagreiðslu og svörin eiga að vera já eða nei, þeir sem taka ekki afstöðu taka einfaldlega ekki þátt í kosningunni.

Skemmst er frá því að segja að landskjörstjórn kom þarna að áður en málið var tekið fyrir á þinginu og ég verð bara að segja alveg eins og er að ég kenni hálfpartinn í brjósti um það fólk sem situr í landskjörstjórn. Þegar það kom fyrir nefndina í morgun gerði fulltrúi landskjörstjórnar verulegar athugasemdir við allar spurningar að einni undantekinni. Landskjörstjórn er mikill vandi á höndum, sérstaklega í ljósi þess að hún á að vera ráðgefandi fyrir Alþingi um það hvernig spurningarnar eru settar fram. Höndum virðist því hafa verið kastað til þegar þessi þingsályktunartillaga var samin.