140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu. Það væri kannski búið að koma fleiri málum á dagskrá þingsins ef maður gæti skyggnst inn í hugarheim ríkisstjórnarmeirihlutans og þingmanna Hreyfingarinnar því að mjög oft hefur verið skipt um hest í þeirri á sem þetta mál er í, þessar breytingar á stjórnarskrá. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvers vegna þetta er að koma fram núna í svona miklum asa, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem vitað var að forsetakosningarnar yrðu 30. júní. Ég held að þetta sé, eins og ég hef fjallað um í hverri einustu umræðu um þessi mál, einfaldlega tafaleikur. Ríkisstjórnin heykist á því að gera eitthvað í stjórnskipunarmálum vegna þess að afurðin sem kom frá stjórnlagaþingi hefur sætt svo mikilli gagnrýni að ríkisstjórnin veit ekkert hvað á að gera við plaggið. (Forseti hringir.) Þess vegna er þetta sent, sem einhver millileikur, í þjóðaratkvæðagreiðslu.