140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Sérstaklega var athyglisvert þegar hann leiddi það fram hvernig ríkisstjórnin hefur gert þetta mál, stjórnarskrármálið, að pólitísku máli og miklu ágreiningsefni í rauninni og þar með brotið algjörlega í blað vegna þess að hingað til hafa stjórnmálaflokkarnir almennt verið sammála um að það væri afar óskynsamlegt að máli eins og þessu væri teflt í mikinn pólitískan ágreining.

Hv. þingmaður kom líka inn á það sem ég tel að skipti orðið mjög miklu máli, 1. spurninguna í 2. tölulið, svohljóðandi: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

Hvað telur hv. þingmaður liggja á bak við þetta? Auðvitað talar spurningin fyrir sig sjálf, hún er sjálfstæð og stendur hér eins og henni er lýst í þessu fylgiskjali. Þar eru í raun ekki slegnir neinar varnagla, hérna er eingöngu verið að vísa í allar náttúruauðlindir og spurningin er hvort menn vilji gera þær allar að þjóðareign og afnema eignarréttarfyrirkomulagið á náttúruauðlindum.

Við hv. þingmaður þekkjum báðir að mikil umræða hefur verið um þjóðlendur. Þar hafa bændur meðal annars talið mjög vegið að eignarrétti sínum. Ekki síst hafa þingmenn úr Vinstri grænum gagnrýnt það að (Forseti hringir.) of harkalega hafi verið gengið fram í þessum efnum. Skýtur það þá ekki skökku við að á sama tíma skuli vera gefið undir fótinn með það að gera allar náttúruauðlindir að þjóðareign?