140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að þetta er gríðarlega stór breyting. Eins og kom fram í máli mínu áðan hlýtur maður að velta fyrir sér hvað vaki fyrir flutningsmönnum tillögunnar þegar þeir velta því fyrir sér hvort ganga eigi lengra en eignarréttarákvæðið kveður á um.

Þetta gætu líka verið hroðvirknisleg vinnubrögð, að menn séu ekki að vinna þessi mál með þeim hætti sem á að vinna breytingar á stjórnarskrá. Það að við skulum vera komin með spurningar hingað inn sem eru svona loðnar og svona orðaðar og hægt að túlka á mismunandi hátt í allar áttir er einmitt, eins og ég kom að í upphafi máls míns, ekki vinnubrögð sem á að viðhafa þegar við erum að vinna breytingar á grundvallarplaggi íslensku þjóðarinnar, sjálfri stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega alvarlegt að við skulum upplifa það ítrekað að svona sé komið fram við stjórnarskrá landsins.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann, eina mínútu, og hvetur þingmenn til að virða hann.)